Rauði kross Íslands

Rauði kross Íslands er sjálfboðahreyfing um 19 þúsund félagsmanna og yfir þúsund virkra sjálfboðaliða sem starfa í 51 deild um allt land. Sjálfboðaliðar og starfsmenn vinna með geðfötluðum, aðstoða flóttamenn, kenna skyndihjálp, hjálpa einstaklingum í þrengingum, safna fötum til neyðarhjálpar, starfa með börnum og ungmennum, gegna lykilhlutverki í neyðarvörnum og inna af hendi óteljandi önnur störf til þess að létta og koma í veg fyrir þjáningar. Alþjóðlegt hjálparstarf Rauða kross Íslands nær á hverju ári til þúsunda fórnarlamba hamfara, ófriðar og örbirgðar um allan heim.

Rauði kross Íslands var stofnaður 10. desember 1924 og varð fullgildur aðili að Alþjóðasambandi landsfélaga Rauða krossins og Rauða hálfmánans ári síðar. Rauði krossinn er elsta, virtasta og fjölmennasta mannúðarhreyfing í heimi, með 97 milljónir félagsmanna og sjálfboðaliða í 181 landi. Markmið Rauða krossins um mannúð, óhlutdrægni, hlutleysi, sjálfstæði, sjálfboðna þjónustu, einingu og alheimshreyfingu eru ætíð höfð að leiðarljósi í Rauða kross starfi, á Íslandi sem annars staðar.

Forseti Íslands er verndari Rauða kross Íslands.

Vefur Rauða kross Íslands.