Listahátíð í Reykjavík

Listahátíð í Reykjavík var fyrst haldin árið 1970 og annað hvert ár frá þeim tíma til ársins 2004, en árlega eftir það. Markmið Listahátíðar hefur frá upphafi verið að undirbúa og halda í Reykjavík hátíðir þar sem fram fer listkynning á sviði tónlistar og söngs, leik- og danslistar, bókmennta, myndlistar og byggingarlistar. Í þeirri kynningu skal hafa metnaðarfulla listsköpun að leiðarljósi og kappkostað að tefla fram framúrskarandi listafólki af hinu alþjóðlega sviði og því besta sem býr í listmenningu þjóðarinnar. Sérstaka áherslu ber að leggja á nýsköpun og aðra þá þætti íslenskrar menningar sem skapa henni sérstöðu í samfélagi þjóðanna.

Hátíðin er fjármögnuð af menntamálaráðuneytinu, Reykjavíkurborg, tekjum af miðasölu, styrktar- og samstarfsaðilum og með öðrum tekjum.

Yfirstjórn Listahátíðar er í höndum fulltrúaráðs, sem er skipað helstu lista- og menningarstofnunum landsins ásamt ýmsum samtökum listamanna. Menntamálaráðherra og borgarstjórinn í Reykjavík gegna formennsku í fulltrúaráðinu til skiptis, tvö ár í senn.

Listrænn stjórnandi er yfirmaður stofnunarinnar og mótar dagskrá hverrar hátíðar. Dagskrárnefnd starfar til ráðuneytis listrænum stjórnanda.

Forseti Íslands er verndari Listahátíðar í Reykjavík.

Vefsvæði Listahátíðar í Reykjavík