Fréttapistill | 17. jan. 2022

„Slöbbum saman"

Koma svo, áfram Ísland! Í nýliðinni viku hófst átak í þágu líkama og sálar. „Slöbbum saman“ heitir það og má sjá nánari upplýsingar hér. Ég hvet öll þau, sem á því hafa tök, að taka þátt, hreyfa sig, njóta náttúru og útiveru.

Um helgina hafði ég óvænt nægan tíma en nýtti hann ekki í neitt nema dívans dorm (eins og segir í gömlu lagi Stuðmanna) þar til ég dreif mig út að hlaupa, átti erindi í Reykjanesbæ og skokkaði um bæinn og út fyrir eins og meðfylgjandi sjálfur sýna. Hreint loft er gulls ígildi. Listaverkið á útveggnum gladdi mig mjög, gaf manni kraft á lokakaflanum, rétt eins og fallbyssan frá Landhelgisgæslunni fyrir framan Duus-hús. Gaman var líka að sjá margt fólk á ferð, gangandi og hlaupandi. Alltaf er gott að líta við suður með sjó.

Strákarnir okkar standa sig nú með sóma í handboltanum. Ég óska þeim góðs gengis í leiknum mikilvæga við Ungverja á morgun. Hér fylgir einnig mynd mín af samstöðu í verki á Evrópumeistaramótinu í hittifyrra.

Samstaða er gjarnan góðra gjalda verð. Í síðustu viku tóku hertar sóttvarnir gildi og vara fram í byrjun febrúar. Við þreyjum þorrann þannig. Sem fyrr getum við Íslendingar þakkað fyrir að hér býr fólk sem vill leggjast saman á árarnar þegar þörfin krefur, fólk sem kynnir sér mál og kemst að upplýstri niðurstöðu. Um leið fer fram stöðug umræða um kosti og galla aðgerða hverju sinni og sem betur fer bendir flest til þess að sá vágestur, sem við er að eiga, veikist með tímanum. Varnir hljóta að taka mið af því.

Góðar stundir.

Birtist fyrst á Facebook-síðu forseta.

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar