Fréttapistill | 27. okt. 2022

Hinsegin í Slóvakíu

Hatursglæpur var framinn í Bratislava, höfuðborg Slóvakíu, fyrir hálfum mánuði. Tveir menn voru skotnir til bana á götu úti við barinn Tepláreň, helsta athvarf hinsegin fólks þar í borg. Við Eliza erum nú stödd í opinberri heimsókn í Slóvakíu í boð Zuzönu Čaputová, forseta landsins. Við héldum til Tepláreň, lögðum blómvendi að vettvangi ódæðisverksins, sendum fjölskyldum og vinum hinna látnu samúðarkveðjur og vildum þannig sýna í verki stuðning og samhug.

Síðan áttum við fund með fulltrúum hinsegin samfélagsins í Bratislava. Þær viðræður snertu okkur djúpt. Þar kom fram að fjölmargir Slóvakar líta ekki aðeins á morðin sem hatursglæp gegn hinsegin fólki heldur einnig sem aðför að hugsjóninni um frjálst og opið samfélag. Á öllum fundum mínum í dag, með forseta Slóvakíu og öðrum fulltrúum stjórnvalda, nefndi ég mikilvægi þess að berjast fyrir réttindum hinsegin fólks og annarra minnihlutahópa til að tryggja í sessi samfélag þar sem öll búa við jafnan rétt til að elska og vera elskuð.

Ísland telst nú meðal fremstu ríkja heims þegar kemur að réttindum hinsegin fólks en hjá okkur gætir líka bakslags og við verðum að standa saman um að verja mannréttindi allra sem eiga undir högg að sækja, heima og að heiman.

Pistillinn birtist fyrst á Facebook-síðu forseta.

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar