Fréttapistill | 21. okt. 2022

Sterk tengsl við Finnland

Tveggja daga ríkisheimsókn Sauli Niinistö, forseta Finnlands, og Jenni Haukio forsetafrúar lauk í gær með ferð okkar á Langjökul. Við jökulröndina eru merkingar sem sýna svo ekki verður um villst hve hratt jökullinn hopar ár frá ári. Að óbreyttu munu íslenskir jöklar halda áfram að minnka vegna loftslagsbreytinga og gangi spálíkön eftir gæti Langjökull hafa tapað 85% af rúmmáli sínu við lok þessarar aldar. Sif Pétursdóttir, meistaranemi í jarðeðlisfræði, fræddi okkur um þessa stöðu mála en einnig fórum við í ísgöngin manngerðu sem liggja inn í jökulinn og allt var þetta mikil upplifun fyrir okkar góðu gesti.

Daginn áður tókum við Finnlandsforseti þátt í málfundi um norræna samvinnu á átakatímum, en þær Eliza og Jenni Haukio, sem báðar hafa lagt fyrir sig ritstörf, ræddu íslenskan og finnskan bókmenntaarf í Norræna húsinu.

Í ár fagna Ísland og Finnland 75 ára stjórnmálasambandi. Gagnkvæmur hlýhugur og samvinna þjóðanna nær enn lengra aftur og var ánægjulegt að geta ræktað þau sterku tengsl með þessum hætti. Einnig var ánægjulegt fyrir okkur Elizu að geta endurgoldið gestrisni og góðvild finnsku forsetahjónanna í ríkisheimsókn okkar til Finnlands fyrir fjórum árum. Í þeirri ferð var sjónum meðal annars beint að aðgerðum til að sporna við einelti meðal ungmenna. Í háskólanum í Turku var undirritaður samstarfssamningur um rannsóknir og aðgerðir til að sporna við því meini. Ekki er vanþörf á.

Pistillinn birtist fyrst á Facebook-síðu forseta.

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar