Fréttapistill | 12. júní 2022

Sigling með Óðni

Gleðilegan sjómannadag, kæru landsmenn! Í dag sæki ég minningarathöfn í Fossvogskirkjugarði um fólk sem hlotið hefur vota gröf hér við land og guðsþjónustu í Dómkirkjunni að því loknu.

Í gær hlotnaðist mér sá heiður að sigla með Óðni frá Reykjavík til Grindavíkur. Varðskipið Óðinn þjónaði Íslendingum í nær hálfa öld, kom til landsins 1960, sinnti frá upphafi björgun á hafi úti og stóð í ströngu í þorskastríðum. Nú er Óðinn safnskip, helsta prýði Sjóminjasafnsins í Reykjavík, en fékk nýlega haffærisskírteini.

Eldsnemma í gærmorgun sigldi Óðinn úr Reykjavíkurhöfn undir stjórn Vilbergs Magna Óskarssonar, skipherra og skólastjóra Skipstjórnar- og Véltækniskólanna. Ég var með í för og á leiðinni fyrir Reykjanesskaga fylgdist ég með sigæfingu þar sem liðsmenn TF-EIR, þyrlu Landhelgisgæslunnar sýndu færni sína í þeim efnum.

Úti á dekki var maður hress og fær í flestan sjó. Neðan þilja syrti hins vegar í álinn þegar leið á siglinguna. Sjóveiki gerði vart við sig og þegar ég ætlaði að njóta indælis kjötsúpu sem borin var á borð fór á annan veg en ætlað var. Yfir vaski þurfti munnfylli af góðgætinu að fara sömu leið út og hún fór inn. Eftir góða sopa af gosi og ferskt loft tók maður gleði sína á ný. Í forsetasvítunni náði ég svo að skrifa lokaorð eftirmála bókar sem ég er með í smíðum um sögu landhelgismálsins árin 1961–1971. Þar kemur Óðinn við sögu, ekki síst vorið 1963 þegar skipverjar náðu Aberdeentogaranum Milwood á sitt vald, eftir eina æsilegustu eftirför í sögu Landhelgisgæslunnar.

Þegar til Grindavíkur var komið hófst hátíðarathöfn. Egill Þórðarson, einn liðsmanna Hollvinasamtaka Óðins, stýrði henni með glæsibrag. Takeyoshi Kidoura, forstjóri skipasmíðastöðvar í Japan sem gaf nýtt formastur á skipið, flutti þar ávarp. Sú gjöf er þakklætisvottur fyrir vinarhug Íslendinga eftir hamfarirnar ytra í mars 2011 þegar jarðskjálfti olli flóðbylgju sem varð fjölda manns að aldurtila og lagði borgir og bæi við ströndina í rúst. Hópur landa okkar sendi þá prjónles og annan varning til bágstaddra íbúa.

Gunnar Tómasson, framkvæmdastjóri Þorbjarnar í Grindavík, og Guðmundur Hallvarðsson, formaður Hollvinasamtaka Óðins tóku einnig til máls. Þá fór Magni skipherra með sjóferðabæn Odds V. Gíslasonar og séra Elínborg Gísladóttir, sóknarprestur Grindvíkinga, flutti blessunarorð.

Ég flutti einnig nokkur orð, þakkaði forstjóra hinnar japönsku skipasmíðastöðvar og föruneyti hans fyrir góða gjöf og minntist farsæls feril Óðins í þjónustu Íslendinga. Loks færði ég liðsmönnum Hollvinasamtakanna innilegar þakkir fyrir ómetanleg störf við viðhald og viðgerðir á Óðni eftir að hann varð safnskip í Reykjavíkurhöfn. Þetta er í raun ótrúleg ræktarsemi í þágu skipsins, í þágu sögu þess, í þágu þjóðarinnar allrar.

Að hátíðarathöfn lokinni var Óðinn opinn gestum og gangandi á Sjóaranum síkáta, fjölskylduhátíð við Grindavíkurhöfn í tilefni sjómannadagsins sem stendur yfir alla þessa helgi. Sjálfur naut ég þess að hafa á ný fast land undir fótum, þáði kaffiboð Sjómannadagsráðs Grindavíkur og tók við glæsilegu Sjómannadagsblaði Grindavíkur úr hendi Einars Hannesar Harðarsonar, hins röggsama formanns Sjómanna- og vélstjórafélags Grindavíkur. Nú ítreka ég þakkir mínar til Magna skipherra og áhafnar safnskipsins Óðins, formanns og allra liðsmanna Hollvinasamtakanna auk Grindvíkinga sem tóku svo höfðinglega á móti Óðni og okkur sem með honum komu.

Megi gæfa og farsæld fylgja íslenskum sjómönnum alla tíð. Aftur segi ég gleðilegan sjómannadag, kæru landar.

Birtist fyrst á Facebook-síðu forseta.

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar