• Ljósmyndir/Bute House
  • Ljósmyndir/Bute House
  • Ljósmyndir/Bute House
Fréttir | 16. apr. 2024

Forsætisráðherra Skotlands

Forseti á fund með Humza Yousaf, forsætisráðherra Skotlands, að aðsetri hans í Bute House í Edinborg. Eliza Reid forsetafrú sat einnig fundinn og var hann liður í Skotlandsferð forsetahjóna sem nú stendur yfir. Markmið ferðarinnar er að styrkja enn frekar vinabönd Íslendinga og Skota, með áherslu á sögu og menningu þjóðanna. Degi áður átti forseti fund með Cameron lávarði af Lochiel, aðstoðarráðherra í Skotlandsmálaráðuneyti Stóra-Bretlands.

Myndasafn frá Skotlandsferð forsetahjóna

Á fundinum með forsætisráðherra var rætt um sameiginlega hagsmuni Skotlands og Íslands, um kosningar fram undan í báðum löndum og þróun stjórnmála á alþjóðavísu. Þá var rætt um reynslu beggja landa af innflytjendamálum, fjölmenningu og inngildingu. Forsetahjón sögðu frá aðgerðum Íslands á sviði jafnréttismála og forsætisráðherrann greindi frá árangri við innleiðingu Barnahúsa að íslenskri fyrirmynd í Skotlandi.

Loks var söguleg arfleifð Íslands í Skotlandi rædd, þar á meðal 150 ára afmæli þjóðsöngsins sem saminn var í Edinborg og Lögréttutjöldin svokölluðu sem Þjóðminjasafn Skotlands mun lána Þjóðminjasafni Íslands í tilefni 80 ára afmælishátíðar lýðveldis á Íslandi í sumar.

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar