Fréttapistill | 30. okt. 2023

Mannlífið í allri sinni fjölbreytni

Í nýliðinni viku fór ég víða um land og sinnti einnig ýmsum viðburðum hér á Bessastöðum. Fyrir helgi boðaði ég fulltrúa Samráðsvettvangs trú- og lífsskoðunarfélaga á Íslandi til fundar vegna þeirra hörmunga sem nú geisa fyrir botni Miðjarðarhafs, hömlulausra árása á saklausa borgara sem ekki sér fyrir endann á. Á fundinum hvatti ég alla viðstadda til að beita sér fyrir því að á þeirra vettvangi verði ætíð talað máli friðar og umburðarlyndis. Um leið nefndi ég að hér á Íslandi, þar sem fullt trúfrelsi skal ríkja, yrði að sporna gegn því að fólk yrði fyrir aðkasti vegna trúar- eða lífsskoðana og gilti þá einu hver ætti í hlut. Við stillum ekki ein til friðar í einu vetfangi í fjarlægum löndum en getum þó lagt okkar af mörkum, meðal annars þannig að fólk sem hér býr njóti öryggis og frelsis.

Á mánudag lá leið mín norður á bóginn. Ég heimsótti nemendur og starfslið Borgarhólsskóla á Húsavík og Stórutjarnaskóla í Þingeyjarsveit. Á báðum stöðum ræddi ég við nemendur elstu bekkja um forvarnir í tilefni Forvarnardagsins fyrr í mánuðinum og kynnti mér skólabraginn. Auk þess fræddist ég um öflugt starf Tónlistarskólans á Húsavík.

Kvennaverkfallið 24. október var virt hjá forsetaembættinu og sömuleiðis á heimili okkar hjóna. Fyrir vikið voru engir viðburðir á Bessastöðum þann dag en ég flutti opnunarávarp á alþjóðlegri ráðstefnu um gagnaver sem samtökin Datacenter Forum stóðu fyrir í Reykjavík. Í máli mínu þar minnti ég á verkfallið og mikilvægi þess að sporna gegn misrétti á vinnumarkaði og öðrum sviðum mannlífsins.

Vel á minnst, mannlífið í allri sinni fjölbreytni. Á miðvikudaginn var heimsótti ég Sólheima á 75 ára afmæli Reynis Péturs Steinunnarsonar. Þar flutti ég ávarp og afhjúpaði styttu sem gerð var Reyni Pétri til heiðurs eftir að hann gekk hringveginn árið 1985, fyrstur Íslendinga. Þannig safnaði hann fé til gerðar íþrótta- og menningarhúss á Sólheimum og vakti einnig athygli á réttindum og málstað þroskaskertra og fatlaðra landsmanna.

Á fimmtudag bauð ég til móttöku á Bessastöðum í tilefni af Óperudögum sem stóðu í tíu daga með aðkomu íslensks og erlends tónlistarfólks. Og tónlistin ómaði víðar í vikunni. Á laugardagskvöld sótti ég tónlistarhátíðina Heima-Skaga á Vökudögum á Akranesi. Þar buðu Skagamenn til tónleika heima í stofu og var gaman að ganga milli húsa og njóta ljúfra tóna. Á sunnudag flaug ég svo norður á Akureyri og sótti hátíðartónleika Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands sem fagnar nú 30 ára afmæli.

Loks er þess að geta að á laugardag flutti ég ávarp við opnun málþings um sundlaugamenningu Íslendinga. Vonir standa til að hún komist á lista UNESCO yfir óáþreifanlegan menningararf mannkyns. Sjálfur stunda ég sund reglulega mér til ánægju og heilsubótar og hvet ykkur sem flest til að nýta þessa einstöku auðlind sem við Íslendingar höfum svo greiðan aðgang að í sundlaugum landsins, ekki síst núna þegar von er á góðu veðri víðast um landið alla þessa viku.

Góðar stundir.

Birtist fyrst á facebook-síðu forseta 30. október 2022.

  • 75 ára afmæli Reynis Péturs Steinunnarsonar fagnað á Sólheimum með afhjúpun styttu sem gerð var eftir að hann gekk hringveginn árið 1985, fyrstur Íslendinga. Ljósmynd: Jónas Gunnarsson
Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar