Fréttapistill | 26. júní 2023

Þakkir fyrir hlýjar afmæliskveðjur

Verkefni nýliðinnar viku voru fjölbreytt eins og oft vill verða. Kvenréttindadagurinn 19. júní hófst með fundi í ríkisráði á Bessastöðum. Á honum féllst ég á lausnarbeiðni fyrir Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra og tók Guðrún Hafsteinsdóttir við því embætti. Eftir hádegi kom stjórn Samtaka kvenna um nýja stjórnarskrá til fundar hér. Við ræddum um endurskoðun stjórnarskrárinnar og framtíðarhorfur á þeim vettvangi. Margt má sem fyrr skoða í þeim efnum, meðal annars ýmislegt sem varðar ríkisráð. Síðar um daginn tók ég á móti góðum gestum að vestan, svonefndum White House Alumni Fellows.

Á þriðjudaginn var átti ég fínan fund með Ólafi Þór Ævarssyni geðlækni um geðheilsu landsmanna, ekki síst skilvirkar leiðir til að takast á við streitu, kvíða og aðra vanlíðan. Á miðvikudag voru Útflutningsverðlaun forseta Íslands afhent við hátíðlega athöfn á Bessastöðum. Þau voru fyrst veitt í tíð Vigdísar Finnbogadóttur og komu að þessu sinn í hlut fyrirtækisins Gangverk. Þá var Hanna Birna Kristjánsdóttir heiðruð fyrir störf sín á alþjóðavettvangi, ekki síst í sambandi við Heimsþing kvenleiðtoga og Women Political Leaders.

Um sama leyti var Eliza í Berlín, fylgdist þar með fulltrúum Íslands á Special Olympics ásamt Ásmundi Einari Daðasyni, ráðherra íþróttamála, og sótti fleiri viðburði.
Síðasta föstudag var ég á Hofsósi, kynnti mér endurnýtingarmiðstöðina Verðandi og sótti sýningu á verkum Helgu Friðbjörnsdóttur, fyrrverandi textílkennara í Varmahlíðarskóla, og Sigrúnar Bragadóttur hannyrðapönkara. Um helgina var bæjarhátíðin Hofsós heim haldin í byggðarlaginu en sjálfur var ég í nágrannabænum Sauðárkróki, á fótboltamóti stúlkna. Ég þakka heimafólki fyrir gestrisni og gott skipulag, og ekki spillti veðrið fyrir.

Í dag flutti ég opnunarávarp á ráðstefnu stéttarfélaga opinberra starfsmanna á Norðurlöndum. Ráðstefnan er haldin í Reykjavík í ár og að þessu sinni er sjónum helst beint að áfallastjórnun á erfiðum tímum. Í máli mínu nefndi ég meðal annars að til væri sú kenning að Íslendingar mættu vandasömum viðfangsefnum hverju sinni með því hugarfari að þetta myndi nú allt reddast, „det ordner sig“ á danskri tungu. Kannski væri sannleikskorn í þessari kenningu en ekki mætti þó gera of mikið úr henni. Hins vegar mætti hampa því að þegar á þurfi að halda geti Íslendingar staðið saman og gengið í þau verk sem vinna þurfi þá og þegar.

Um hádegisbil komu leikskólabörn frá leikskólanum Sunnuási í Reykjavík í heimsókn á Bessastaði og sungu fyrir mig, meðal annars afmælissönginn. Síðdegis mætti svo fríður flokkur hingað, hlaupahópurinn Hugurinn fer hærra sem systurnar Þórhildur og Áslaug Stefánsdætur stofnuðu síðasta nýársdag. Liðskonur buðust til að skokka með gamla manninum og tókum við hringinn umhverfis Bessastaðatjörn. Ég þakka að lokum hlýjar afmæliskveðjur og óska landsmönnum alls velfarnaðar.

Birtist fyrst á facebook-síðu forseta 26. júní 2023.

  • Börn frá leikskólanum Sunnuási færðu forseta föndrað afmæliskort og sungu fyrir hann á 55 ára afmælinu.
  • Ríkisráðsfundur á Bessastöðum á kvenréttindadaginn 19. júní, þar sem Guðrún Hafsteinsdóttir tók við embætti dómsmálaráðherra. Ljósmynd/Gunnar Vigfússon
  • Hlaupahópurinn ,,Hugurinn fer hærra" skoraði á forseta í útihlaup um Bessastaðanes á 55 ára afmælisdaginn.
Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar