• Handhafar Íslensku lýðheilsuverðlaunanna 2023 ásamt forseta og Willum Þór Þórssyni heilbrigðisráðherra.
Fréttir | 22. mars 2024

Lýðheilsuverðlaunin - frestur til 1. apríl

Forseti kallar eftir tillögum frá almenningi að verðugum verðlaunahöfum Íslensku lýðheilsuverðlaunanna, sem afhent verða í annað sinn í síðari hluta apríl. Tillögugáttin er á vefsíðunni www.lydheilsuverdlaun.is og er frestur til að skila inn tillögum, ásamt rökstuðningi, til mánudagsins 1. apríl.  Dómnefnd mun fjalla um tillögurnar sem berast og tilnefna þrjár í hvorum flokki og verður fjallað um hin tilnefndu verkefni á RÚV á sumardaginn fyrsta, þann 25. apríl, en þá verður verðlaunaafhendingunni jafnframt sjónvarpað.

Íslensku lýðheilsuverðlaununum er ætlað að vekja athygli á mikilsverðu framlagi á sviði lýðheilsu og auka með þeim hætti áhuga á bættri heilsu og líðan almennings. Efnt er til þessara verðlauna í samstarfi við heilbrigðisráðuneytið, embætti landlæknis, Geðhjálp og Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands.

Forseti afhenti Íslensku lýðheilsuverðlaunin í fyrsta sinn vorið 2023. Þá hlaut Snorri Már Snorrason verðlaunin í einstaklingsflokki en í flokki starfsheilda varð Miðstöð í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands fyrir valinu. Nánar má lesa um verðlaunahafa og þau sem þá voru tilnefnd hér: Lýðheilsuverðlaunin afhent í fyrsta sinn.

Myndasafn frá afhendingu Íslensku lýðheilsuverðlaunanna 2023.

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar