• Margrét II drottning og Hinrik prins taka á móti forsetahjónum við komuna í Amalíuborgarhöll.
Fréttir | 24. jan. 2017

Opinber heimsókn - fyrri dagur

Forseti Íslands og Eliza Jean Reid forsetafrú voru í opinberri heimsókn í Danmörku 24.-25. janúar 2017. Fyrri dagur heimsóknarinnar hófst með því að Margrét II Danadrottning og Hinrik prins tóku á móti forsetahjónum í Amalíuborgarhöll í Kaupmannahöfn þar sem þau gistu ásamt utanríkisráðherra og frú. Forsetahjónin héldu svo með fylgdarliði sínu í Jónshús þar sem sagt var frá starfsemi sem fram fer í húsinu. Meðal þeirra sem þar tóku til máls auk forseta voru Karl Kristjánsson, stjórnarformaður hússins, og Halla Benediktsdóttir forstöðumaður þess.

Næst lá leiðin í Kristjánsborgarhöll þar sem forsetahjónum voru sýndar ýmsar þeirra gersema sem þar eru varðveittar í glæsilegum sölum en að því loknu átti forseti einkafund með Lars Løkke Rasmussen forsætisráðherra og bauð ráðherrann gestunum þvínæst til hádegisverðar. Þar fluttu þeir báðir stutt ávörp, ráðherrann og forseti. Í Kristjánsborgarhöll þáði forseti einnig boð forseta þingsins Pia Kjærsgaard. Forseti hitti þar einnig að máli forsætisnefnd þingsins og skoðaði gömul skjöl í eigu þess.

Að þessu loknu héldu forsetahjónin í Svarta demantinn, glæsilega byggingu sem hýsir Konungsbókhlöðuna, höfuðbókasafn landsins. Þar afhenti forseti Mette Bock menningarmálaráðherra Dana 700 eintök af heildarútgáfu Íslendingasagna í nýrri danskri þýðingu til ráðstöfunar fyrir skóla og bókasöfn í landinu. Við þetta tækifæri var lesið upp úr sögunum, flutt tónlist og sýndar ljósmyndir frá Norðurslóðum.

Að kvöldi þessa fyrri dags hinnar opinberu heimsóknar bauð Margrét drottning forseta Íslands og frú Elizu til hátíðarkvöldverðar í Amalíuborgarhöll og flutti forseti þar þakkarræðu fyrir hönd Íslendinga.

Myndasafn.

Myndir á vef dönsku hirðarinnar.

Ræða forseta í hádegisverði í boði Lars Løkke Rasmussen forsætisráðherra (á dönsku).
Ræða forseta í Svarta demantinum (á dönsku).
Ræða forseta í hátíðarkvöldverði í Amalíuborgarhöll í íslenskri gerð (ræðan eins og hún var flutt, á dönsku).

Myndbandsupptaka af ræðu forseta.

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar