Fréttir | 16. feb. 2017

Norðurferð

Forseti Íslands heimsækir Fjölsmiðjuna á Akureyri, Menntaskólann á Akureyri og Grenivíkurskóla. Forseti fylgdi Elizu Reid forsetafrú sem hélt til Hjalteyrar og afhenti Eyrarrósina, viðurkenningu fyrir framúrskarandi menningarverkefni utan höfuðborgarsvæðisins.

Forseti fór fyrst í Fjölsmiðjuna á Akureyri og kynnti sér starfsemi hennar. Fjölsmiðjan er vinnusetur fyrir ungt fólk sem vill fá stuðning við að komast á almennan vinnumarkað eða stunda nám við hæfi.

Frá Fjölsmiðjunni hélt forseti til Menntaskólans á Akureyri. Við hátíðlega athöfn á sal var forseti sæmdur heiðursmerki skólans. Forseti flutti ávarp um hina merku sögu skólans og hefðir hans sem gjarnan má halda áfram í heiðri þótt allt sé vissulega breytingum háð. Síðan svaraði forseti spurningum um landsins gagn og nauðsynjar og kenndi þar ýmissa grasa.

Að síðustu fór forseti til Grenivíkur og heimsótti grunnskólann þar. Þakkaði forseti þannig fyrir þann vináttuvott sem nemendur sýndu honum fyrir skemmstu með því að halda sérstakan Guðnadag eins og fram kom í fréttum á sínum tíma. Með kynnisferð um skólann og skemmtiatriðum nemenda, upplestri og söng fékk forseti góða innsýn í hið öfluga starf sem unnið er í Grenivíkurskóla, smárri en knárri kennslustofnun á landsbyggðinni.

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar